Himnaríki

Prédikun flutt í Hofsósskirkju 6. febrúar 2011, á fimmta sunnudegi eftir þrettánda.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

Jesús er að tala til okkar í dæmisögum í dag, eins og svo oft áður. Himnaríki er líkt akri sem maður keypti; það er líkt neti sem safnar fiski. Jesús tók oft dæmi af vettvangi daglega lífsins til að koma boðskap sínum til skila og gera hann skiljanlegri þeim sem hlýddu á hann. Dæmisögurnar fóru misjafnlega vel í þá sem hlustuðu. Sjálfir lærisveinarnir, sem voru með Jesú dag frá degi, þurftu stundum að biðja hann að útskýra dæmisögurnar fyrir sig því þeir áttuðu sig ekki alltaf á því hvað hann átti við. Við ættum því ekki að láta það trufla okkur of mikið þó að dæmisögur Jesú eða annað í Biblíunni ljúkist ekki upp fyrir okkur umsvifalaust. En það minnir okkur á að þegar Jesús talar í dæmisögum ættum við að hlusta sérstaklega vel.

Og ef til vill er það ástæðan fyrir því að Jesús notaði dæmisögur. Hann vill að við hlustum. Hann vill að við veltum orðum sínum fyrir okkur af alvöru og leggjum það á okkur að reyna að skilja merkingu þeirra og þýðingu. Að þurfa að hafa fyrir hlutunum kennir okkur að meta þá betur á eftir, eins og við vitum.

Jesús sagði aldrei neitt sem var merkingarlaust. Allt sem hann sagði var þrungið merkingu. Þó dæmisögurnar, eins og þær sem við heyrðum áðan, hljóma margar hverjar einfaldar og auðskiljanlegar, þá eru þær dýpri en svo að við getum skilið þær til fulls. Ástæða þess er sú að líkt og allt annað sem Jesús sagði eða gerði benda þær út fyrir sig, til þess veruleika sem Jesús er að reyna að leiða okkur fyrir sjónir og kalla okkur til - þ.e. til veruleika Guðs sjálfs, skapara himins og jarðar. Á bak við hverja dæmisögu er hann að tala til okkar og segja okkur eitthvað, um sjálfan sig og okkur sjálf.

Í dæmisögum guðspjallsins er Jesús að segja lærisveinunum frá himnaríki. Himnaríki var kjarninn í boðskap Jesú. Þegar Jesús hóf starf sitt boðaði hann fólki að himnaríki væri „í nánd", að það væri ekki langt undan. Jesús var ekki að benda á einhvern tiltekinn stað á landakortinu - þó það sé oftar en ekki fyrsta hugmyndin sem við gerum okkur af himnaríki. Nei. Jesús var að vísa til ákveðins veruleika eða ástands. Himnaríki, eða guðsríki, eins og það er líka nefnt, er fólgið í því þegar vilji Guðs ræður ríkjum. Himnaríki er að finna þar sem vilji Guðs er leiðandi og umbreytandi afl og allt í öllu.

Og til þess kom Jesús! Jesús kom til þess að opinbera okkur vilja Guðs. Þannig hóf himnaríki innreið sína inn í þennan heim með Jesú. Þess vegna er himnaríki „í nánd". Þess vegna er það nærri - vegna þess að hann kom inn í þennan heim; vegna þess að hann steig inn á vettvang sögunnar, gekk inn í þetta líf. Og með honum himnaríki, vilji Guðs. Með lífi og starfi Jesú, orðum hans og verkum, dauða og upprisu, hófst Guð handa við að umskapa þennan heim til þeirrar myndar sem hann ætlar honum. Það verk er þegar hafið þó því sé ekki ennþá lokið.

Hvað hefur það að gera með okkur? Allt! Það hefur allt með okkur að gera. Við erum öll kölluð til að taka þátt í því verki og leggja okkar til við að koma himnaríki á fót. Jesús kenndi okkur að biðja: „Tilkomi þitt ríki." Og það sem kemur á eftir er engin tilviljun: „Verði þinn vilji." Himnaríki er þar sem vilji Guðs er mótandi og fær að hafa áhrif. Að ganga himnaríki á hönd er fólgið í því að láta leiðast af vilja Guðs í sínu lífi og bera honum vitni í hugsunum, orðum og gjörðum. Að upplifa himnaríki er því að upplifa Guð í sínu lífi og leyfa vilja hans að móta það allt - þannig er himnaríki innra með okkur, eins og Jesús sagði.

En það er samt annað. Himnaríki kemur ekki af sjálfu sér. Það er ekki sjálfgefið. Við verðum að opna líf okkar fyrir vilja Guðs. Himnaríki fæst ekki gefins, það er ekki ódýrt. Eins og fram kemur í dæmisögunum verðum við að leggja eitthvað af mörkum, eitthvað á móti. Himnaríki er eitthvað sem þarf að fórna miklu fyrir. Báðir mennirnir í dæmisögunni seldu allar sínar eigur. Það er ekki lítið. Það er í raun miklu meira en margir eru tilbúnir til að leggja út. Það er nefnilega framandi viðhorf í hugum margra að það sem sé í raun og veru dýrmætt hljóti að kosta mikið. Margir halda þvert á móti að hægt sé að fá öll heimsins gæði fyrir lítið sem ekkert.

Var það ekki slíkur hugsunarháttur sem leiddi til þess tjóns sem varð hér á Íslandi. og svo víða um heim. Fólk hélt að það væri hægt að ganga að flestu sem gefnu og alltaf hægt að fá meira og meira án þess að þurfa að leggja neitt raunverulega á móti. Og það var sama hvað sumum áskotnaðist. Það var ekki nóg. Það þurfti alltaf eitthvað meira. Ein perla dugði ekki. Nú má reyndar ekki alhæfa í þessu samhengi. Auðvitað hugsuðu ekki allir svona. En margir gerðu það með einum eða öðrum hætti. Of margir. Og hinir sem gerðu það ekki þurfa líka að gjalda fyrir ástandið með einum eða öðrum hætti. Auðvitað kom svo að því að allt var orðið svo þungt enda svo mikið færst í fang að enginn stóð undir því og allt hrundi. Já, viðhorf hafa afleiðingar.

Við getum svo auðveldlega misst allt úr höndunum - af því að við erum svo upptekin við að eltast við okkur sjálf og okkar eigin vilja og langanir, að við áttum okkur ekki á því hvað við höfum, hvað okkur er gefið og hvað okkur stendur til boða ef við viljum þiggja það. Við getum misst af himnaríki, af Guði sjálfum! Sá möguleiki er fyrir hendi. Við fáum nefnilega að velja. Við fáum að velja á milli þess lífs sem Guð ætlar okkur og þess lífs sem við kjósum okkur sjálf í eigin valdi. Við fáum að velja á milli vilja Guðs og okkar eigin vilja. Og þegar allt kemur til alls eru aðeins til tvær tegundir af fólki held ég. Það er það fólk sem segir við Guð: „Verði þinn vilji" og það fólk sem Guð segir við: „Gott og vel, verði þinn vilji." Hvoru megin stöndum við? Við verðum að spyrja okkur að því.

En um hvað er verið að tala hér? Það er verið að tala um traust. Það er verið að tala um trú, um afstöðu, um hjartalag, um vilja. Það er verið að spyrja á hvað þú treystir í lífi þínu þegar allt kemur til alls? Hvað ert þú tilbúinn til að leggja á móti? Hvers virði er trúin þér þegar allt kemur til alls. Trú sem krefst einskis af okkur er býsna haldlítil. Trú sem engu þarf að fórna fyrir ristir grunnt.

Það er mikið talað um að skapa nýtt og betra samfélag á meintum rústum þess gamla. Í hugum margra felst bótin ekki síst í nýjum lögum, reglum og skrám. Það er gott og gilt svo langt sem það nær. En það gagnar lítið ef hugsunarhátturinn helst sá sami, ef viðhorfin breytast ekki, ef viljinn stefnir í sömu átt. Nýjar reglu og skrár eru engin trygging í þeim efnum og hafa aldrei verið.

Staðreyndin er sú að ef við horfum ekki lengra en nemur eigin vilja og löngunum þá breytist lítið. Ef við útilokum Guð úr lífi okkar, ef við ýtum honum til hliðar og hirðum ekkert um vilja hans, já, ef við látum sem hann sé ekki til, þá segir það sig sjálft að við höfum ekkert annað viðmið en okkur sjálf. Í því liggur líka vandinn, segir Jesús. Maðurinn hefur svo lítið pláss fyrir Guð vegna þess að hann er svo upptekin af sjálfum sér. Við verðum því að fórna sjálfum okkur, ef svo má segja. Við verðum að leggja okkur sjálf til hliðar. Við verðum að hliðra til, búa til pláss. Það er fórnarkostnaðurinn. Þess vegna er himnaríki dýrt. Og þess vegna rennur það mörgum úr greipum.

Himnaríki kostar okkur mikið af því að það kallar okkur til fylgdar. En það er þess virði vegna þess að það kallar okkur til fylgdar við Jesú Krist. Himnaríki er dýrt vegna þess að kostar okkur lífið. En það er þess virði vegna þess að það lýkur upp fyrir okkur og leiðir okkur á vit hins sanna lífs.

Merkir þetta að við látum eins og við séum ekki til, að við skiptum ekki máli, að vilji okkar, langanir og þrár hafi ekkert að segja? Nei, langt í frá. Þetta merkir umfram allt að við áttum okkur á því hver við erum í raun og veru, af hverju við erum, og lifum lífi okkar í ljósi þess.

Já, Jesús er að kalla okkur til fylgdar. Hann er að tala til þín. Hann er að kalla þig til fylgdar. Í þessum litlu og fallegu dæmisögum dregur hann upp þau dásamlegu fyrirheiti og þau óviðjafnanlegu gæði sem fólgin eru í himnaríki, sem taka fram öllu því sem við getum veitt okkur sjálf í þessu lífi. Að ganga á vit himnaríkis, að leggja traust okkar á Jesú, að gefa vilja Guðs pláss til áhrifa í okkar lífi, er að ganga á vit þess lífs sem Guð ætlar okkur, sem er líf í fullri gnægð. Í því er himnaríki fólgið. Þangað vill hann leiða okkur, þig og mig. Veldu lífið, segir í fyrri ritningarlestri dagsins. Það er hvatningin til okkar. Og það er vilji Guðs og von að svo megi verða. Til þess kom hann. 

Hafðu það líka í huga, þegar þessum dæmisögum sleppir, að sérhvert atvik í lífinu, hvort sem það er stórt eða smátt, gleðilegt eða sorglegt, auðvelt eða erfitt, er dæmisaga þar sem Guð er að tala til þín. Listin að lifa lífinu er fólgin í því að hlusta eftir honum og reyna að átta sig á því sem hann er að segja og tilgangnum á bak við það. Það þýðir ekki að lifa fullkomnu lífi hér og nú. En það þýðir að lifa lífi sínu í trausti til Guðs sem er fullkomin og kallar okkur til fullkomins lífs hjá sér.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.

* * * *

Guðspjallstexti dagsins: Matt 13.44-52

Enn sagði Jesús: „Líkt er himnaríki fjársjóði sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann. Enn er himnaríki líkt kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu fór hann, seldi allt sem hann átti og keypti hana. Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða þegar veröld endar: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Hafið þið skilið allt þetta?" „Já," svöruðu lærisveinarnir. Jesús sagði við þá: „Þannig er sérhver fræðimaður sem orðinn er lærisveinn himnaríkis líkur húsföður sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband