Ranghugmyndin um guð

ranghugmyndin_1.jpg„Áhrifamesta rit síðustu ára!"

Fyrir skemmstu kom út bókin Ranghugmyndin um guð. Um er að ræða þýðingu Reynis Harðarsonar á bók guðleysingjans Richard Dawkins, The God Delusion, sem kom út árið 2006. Að mati þýðanda, sem er formaður félagsins Vantrúar, er bók Dawkins „hugsanlega eitt áhrifamesta rit síðustu ára" og vonar hann að „umræða um trúmál [verði] á vitrænni nótum þegar fleiri kynnast rökum Dawkins fyrir trúleysi".

Hvað sem áhrifagildi bókarinnar líður má sannarlega ala á þeirri von að íslensk þýðing hennar verði til þess að fleiri kynni sér málflutning Dawkins. Einnig má taka undir væntingar þýðanda að það leiði til þess að umræða um trúmál verði skynsamlegri fyrir vikið. - Og ef fólk gaumgæfir málflutning Dawkins í raun og veru, þ.e. rök hans fyrir guðleysi, og vegur hann og metur í ljósi skynsamlegra mælikvarða, er ég vongóður um að svo verði. Ástæða þess er einföld: Ef ætlunin er að kynna sér grundvöll og gildi guðstrúar af opnum huga og vitsmunalegum heiðarleika þarf ekki að lesa lengi í bók Dawkins til að sjá að hún er fyrst og fremst samansafn upphrópana, sleggjudóma, útúrsnúninga og rangfærslna, þar sem höfðað er til tilfinninga lesandans fremur en yfirvegaðrar og skynsamlegrar íhugunar um efnið. Raunin er sú að í bók sinni dregur Dawkins upp skopmynd af trú og trúuðu fólki sem honum reynist auðvelt að draga dár að.

Richard Dawkins er hæfur þróunarlíffræðingur og hefur sem slíkur þótt rita góð vísindarit. Hitt er annað mál að Ranghugmyndin um Guð er ekki bók af þeim toga. Hún hefur fyrst og fremst að geyma heimspeki og guðfræði í bland við þróunarsálfræði og samfélagslega rýni. Dawkins leitast við að sýna fram á hversu óskynsamleg trú og trúarbrögð séu og þá meintu hættu sem af þeim stafi - sem að mati Dawkins er hreint ekki lítil. Hvað efnið varðar býður bókin ekki upp á yfirvegaða og skynsamlega umræðu. Leiti maður eftir slíkri umræðu grípur maður í tómt þegar Dawkins er annars vegar, líkt og einn gagnrýnandi hans komst að orði. Þess í stað býður bókin upp á vænan skammt af heift og lítilsvirðingu í garð trúar, trúaðs fólks og trúarbragða yfirleitt. Hvað gæði umfjöllunarinnar snertir komst annar gagnrýnandi Dawkins svo að orði: Ef þú vilt fá tilfinningu fyrir því hvernig er að lesa guðfræðilega umfjöllun eftir Dawkins getur þú ímyndað þér einhvern sem skrifar bók um líffræði í krafti þeirrar þekkingar á efninu sem fæst af því að lesa The Book of British Birds. Þannig er Alvin Plantinga, einn fremsti trúarheimspekingur heims, ekki í vafa um að margar af röksemdafærslum Dawkins myndu fá falleinkun í hvaða byrjendaáfanga í heimspeki sem er. Það segir hann ekki til að vera hæðinn í garð Dawkins.

Rök Dawkins

Þegar kemur að því að gagnrýna umfjöllun og efnistök Dawkins þarf að segja fleira en unnt er í stuttri grein. En spyrja má hver séu rök hans fyrir guðleysi, sem þýðandi bókarinnar bindur svo miklar væntingar við? Þau eru, að því er virðist, aðeins ein!

Í bók sinni gagnrýnir Dawkins hin svokölluðu hönnunarrök fyrir tilvist Guðs. Á blaðsíðu 157-158 (í frumútgáfu bókarinnar) segir Dawkins að þar sé um að ræða „grundvallarröksemdafærslu" bókarinnar og kjarnann í máli sínu.

Hvað eru hönnunarrök fyrir tilvist Guðs? Hönnunarrökin eiga sér rætur í forngrískri heimspeki. Þau ganga út frá þeirri forsendu að alheimurinn sýni merki hugvitsamlegrar hönnunar. Þar sem hönnuður er ævinlega á bak við hönnun megi draga þá skynsamlegu ályktun að alheimurinn bendi út fyrir sjálfan sig og að á bak við hann sé hönnuður (Guð). Hönnunarrökin hafa tekið á sig ólíkar myndir á ólíkum tímum enda breytilegt hvað tekið hefur verið sem dæmi um hönnun innan alheimsins. Á meðal þess sem hefur stórum aukið áhrifamátt hönnunarrakanna á síðari tímum er sú vísindalega uppgötvun að tilvist alheimsins og þróun lífs er langt frá því að vera sjálfsagt mál. Reyndin er sú að til að alheimurinn og líf innan hans geti yfirleitt orðið til þurfa gildi lögmála og fasta náttúrunnar að falla í svo óskiljanlega þröngt bil að það verður ekki útskýrt sem tilviljun ein. Sem eitt dæmi af mörgum má nefna að samkvæmt útreikningum eðlisfræðingsins P.C.W. Davies myndi breyting á veika kjarnakraftinum sem næmi aðeins einum hluta á móti 10 í hundraðasta veldi koma í veg fyrir lífvænlegan alheim.

Þessi staðreynd hefur verið kölluð „fínstilling" alheimsins. Í ljósi hennar komst eðlisfræðingurinn Paul Davies svo að orði: „Í gegnum störf mín hef ég sannfærst um að alheimurinn er settur saman af svo undursamlegu hugviti að hann verður ekki útskýrður sem afurð hreinnar og klárrar tilviljunar." Margir vísindamenn fallast á hönnunarrökin, þeirra á meðal Francis Collins, sem stýrði GENOME verkefninu eða skrásetningu á erfðamengi mannsins. Eins og frægt er orðið var það tiltekin útgáfa hönnunarrakanna sem sannfærði heimspekinginn Anthony Flew, einn áhrifamesta guðleysingja síðustu aldar, um tilvist Guðs.

Í Ranghugmyndinni um Guð hafnar Dawkins hönnunarrökunum á þeirri forsendu að hinn meinti hönnuður kalli sjálfur á útskýringu. Sú mótbára er með öðrum orðum fólgin í hinni kunnu spurningu: Hver skapaði Guð? Þessa mótbáru kallar Dawkins „grundvallarröksemdafærslu bókar sinnar". Hann dregur hana saman með eftirfarandi hætti:

1. Ein mesta áskorun mannlegrar hugsunar hefur verið sú að útskýra tilkomu þess sem virðist vera margbrotin og ólíkleg hönnun innan alheimsins.

2. Hin eðlilega freisting er sú að ætla að hér sé um raunverulega hönnun að ræða.

3. Sú freisting er ekki réttmæt vegna þess að hönnunarkenningin vekur strax upp stærri vanda, þ.e. spurninguna hver hannaði hönnuðinn.

4. Hugvitssamlegasta og áhrifamesta útskýringin er darvinsk þróun fyrir tilstilli náttúruvals.

5. Við höfum ekki sambærilega útskýringu innan eðlisfræðinnar.

6. Við ættum ekki að gefa upp þá von að eðlisfræðin komi fram með betri útskýringu, eitthvað jafn áhrifaríkt darvinisma innan líffræði.

Þar af leiðandi er Guð svo til örugglega ekki til.

Rökleysa Dawkins

Það sem er eftirtektavert við þessa „röksemdafærslu" er að niðurstöðuna - „Þar af leiðandi er Guð svo til örugglega ekki til" - leiðir augljóslega ekki af staðhæfingunum sem á undan fara (og gildir þá einu hvort þær séu sannar eða ekki). Hér er einfaldlega um ógilda röksemdafærslu að ræða. Fjarlægðin á milli forsendanna - ef forsendur má kalla - og niðurstöðunnar er í raun sláandi. Og jafnvel þótt andmæli Dawkins væru á rökum reist ógildir maður ekki viðhorf með því að ógilda tiltekin rök fyrir því. Það kunna vel að vera annarskonar rök fyrir hendi sem réttlæta það.

En fleira má finna að „röksemdafærslu" Dawkins. Það má efast um gildi staðhæfinga hans. Í fimmtu staðhæfingunni víkur Dawkins að fínstillingu alheimsins. Engin útskýring er gefin á henni. Sjötta staðhæfingin felur því fátt annað í sér en trú náttúruhyggjusinna. Ennfremur kallar þriðja staðhæfingin á ýmsar spurningar. Staðreyndin er sú að til þess að gangast við tiltekinni útskýringu er ekki nauðsynlegt að geta útskýrt sjálfa útskýringuna. Að halda öðru fram er rökvilla sem gjarnan er kennd við fullkomnunaráráttu. Það sjá allir að ef slíkur mælikvarði væri lagður til grundvallar útskýringu yrði aldrei neitt útskýrt. Það þyrfti alltaf að útskýra útskýringuna. Vísindi væru óhugsandi.

Hugsum okkur fornleifauppgröft. Ef ég gref upp úr jörðinni ýmiskonar áhöld, verkfæri, mataráhöld, vopn o.s.frv. þá væri fyllilega réttmætt að draga þá ályktun að þau bentu til áður óþekkts hóps af fólki (vitsmunaverum) sem í senn bjuggu áhöldin til (hönnuðu) og notuðu. Það breytti engu þótt ég gæti ekki útskýrt hvaða fólk þetta var, af hverju það var þarna á ferð, hvaðan það kom o.s.frv.

Ástæða þess að Dawkins telur tilvist Guðs jafn ólíklega og raun ber vitni er ekki síst sú að hinn meinti hönnuður alheimsins hljóti að vera, að hans mati, að minnsta kosti jafn margbrotinn og flókinn og alheimurinn sjálfur, og því sé ekki um neina útskýringu að ræða þegar allt kemur til alls. En hvaða rök liggja þeirri ályktun til grundvallar? Dawkins virðist telja hana sjálfgefna. Fyrir utan að sú ályktun - að hinn guðlegi hönnuður hljóti að vera jafn margbrotinn og alheimurinn sem hann hannar - lýsir ekki hinu klassíska kristna viðhorfi, þá er hún einfaldlega ekki rétt. Dawkins tekur ekki til greina að Guð er ekki af sama toga og alheimurinn. Guð er í eðli sínu óefnislegur hugur. Guð er takmarkalaus andi án líkama. Sem slíkur er Guð eins einfaldur og vera má. Hann er ekki settur saman úr efnislegum hlutum. Hann er ekki bundinn tíma, rúmi og efni. Hann er ekki háður neinum takmörkum sem myndu kalla á frekari útskýringu. Guð getur vissulega haft margbrotnar hugmyndir og gert flókna hluti. En Guð er sjálfur eins einfaldur og vera má.

Segjum að starfsfélagi minn við áðurnefndan fornleifauppgröft hafni útskýringu minni á áhöldunum sem grafin voru upp og segi: „Bíddu við. Áður óþekktur hópur fólks?! Hvað áttu eiginlega við? Það útskýrir ekkert. Ef vitsmunaverur hönnuðu þessi áhöld hljóta þær að hafa verið að minnsta kosti jafn flóknar og áhöldin sjálf! Þetta er því augljóslega bull hjá þér sem útskýrir ekkert." Ég býst fastlega við því að flestir myndu ætla að þessi ágæti fornleifafræðingur hefði sleppt nokkrum áföngum í námi sínu.

Þegar vísað er til Guðs sem útskýringu á veruleikanum er ekki um að ræða endanlega útskýringu á því sem er til, einfaldlega vegna þess að Guð á sér ekki útskýringu. Guð er nauðsynlegur. Tilvist hans verður ekki útskýrð á grundvelli einhvers annars. Ef Dawkins telur að tilvist slíkrar veru sé ólíkleg verður hann leggja fram rök fyrir því að svo sé. Forsenda slíkrar röksemdarfærslu getur ekki verið sú að efnishyggja sé sönn. Hvorki Dawkins né aðrir hafa lagt fram frambærileg rök af þeim toga. Dawkins virðist ekki einu sinni átta sig á því að hann þurfi að færa fram slík rök.

En vandi Dawkins er meiri en svo, eins og glöggt má sjá á málflutningi hans. Ef veruleikanum er háttað eins og Dawkins telur, ef allt er fólgið í blindri og tilviljunakenndri þróun án nokkurs markmiðs, þá á það líka við um viðhorf og hugmyndir náttúruhyggjusinna um lífið og tilveruna, þ.m.t. hans sjálfs. Þau eru ekkert annað en afrakstur blindrar og tilviljunarkenndrar þróunar. Í því ljósi er vandséð hvers vegna maður ætti að fallast á þau. Hvaða ástæðu hefur Dawkins sjálfur til að fallast á þau? Blind þróun efnis hefur jú ekkert að gera með það sem er satt og rétt.

Á þetta hefur löngum verið bent. Ef allt er afleiðing af tilviljanakenndum árekstri atóma þá þýðir það að hugsanir og skoðanir mannsins eru aðeins aukaafurð þeirrar tilviljunar. Viðhorf náttúruhyggjusinna eru þar ekki undanþegin. Ef svo er hvers vegna ættum við að trúa því að viðhorf þeirra séu sönn og gefi rétta mynd af veruleikanum? Eins og C.S. Lewis sagði eitt sinn: „Ég sé enga ástæðu til að trúa því að ein tilviljun geti gefið rétta útskýringu á öllum öðrum tilviljunum. Það væri eins og að ætla að hið tilviljunarkennda lag sem mjólk tekur á sig þegar henni er óvart hellt niður úr fernunni geti útskýrt hvernig fernan sjálf varð til og hvers vegna það helltist úr henni."

Raunin er sú að Ranghugmyndin um Guð gefur engar ástæður til að ætla að Guð sé ekki til, hvað þá að tilvist hans sé ranghugmynd. Það er engin ástæða til að trúa málflutningi Dawkins. Þvert á móti eru margar góðar og gildar ástæður til að hafna honum.

Hér mætti sannarlega bæta mörgu við. En hvað sem því líður er „grundvallarröksemdafærsla" Dawkins ekki góð. Dawkins gefur sér fyrirfram að efnishyggja sé sönn. Hann færir ekki rök fyrir því. Ef röksemdafærslu hans er ætlað að réttlæta guðleysi missir hún sannarlega marks. Það sama á við um bók Dawkins í heild sinni að mínu mati. Tónn umfjöllunarinnar er yfirlætislegur, villandi, og rökfræðin er í besta falli vandræðaleg.

Holl lesning þrátt fyrir allt

Ranghugmyndin um Guð er tilfinningaþrungin lofræða um gildi guðleysis og þann meinta hjálpræðisveg sem vísindi bjóða manninum uppá. Um leið er bókin miskunarlaus gagnrýni á trú og trúarbrögð þar sem öllu trúuðu fólki virðist skipað í sama flokk sem óskynsömu og hættulegu. Dawkins upphefur guðleysi og vísindi sem einu dyrnar að ósviknu og gefandi lífi um leið og hann ræðst á trú og trúað fólk sem skæðustu hættuna sem steðjar að mannkyni. Trú virðist ekkert minna en rót alls ills í heiminum. (Jafnvel þó það væri satt segði það ekkert um tilvist Guðs.) Það viðhorf er allrar athygli vert í ljósi þess að Dawkins hefur sjálfur staðhæft - og mjög svo réttilega, með tilliti til guðlausrar efnishyggju - að „eins og alheimurinn blasir við er hann nákvæmlega eins og við er að búast ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint, miskunnarlaust tómlæti."

En þrátt fyrir að Dawkins hafi augljóslega engar forsendur til þess í ljósi guðlausrar heimsskoðunar sinnar þreytist hann ekki á því að fella siðferðisdóma og rekja allt illt til trúar og trúarbragða (enda þótt ekkert illt sé til í hans heimi). Með því sýnir hann glöggt fram á hversu gjaldþrota og mótsagnakennd guðlaus heimsskoðun er.

Ranghugmyndin um Guð er rúmlega fjögurhundruð blaðsíðna tilraun til að fylkja fólki um þá heimsskoðun.

Þrátt fyrir allt vona ég að bókin komi víðar við en á altari guðleysingjanna í Vantrú. Það er full þörf á að þeir sem vilja beina umræðu um trú og trúmál í skynsamlegan farveg átti sig á þeirri óskynsemi, rangfærslum og fordómum sem fólgin eru í málflutningi bókstafstrúaðra guðleysingja á borð við Richard Dawkins. Og er þá fátt betra eða hollara en að lesa Ranghugmyndina um Guð.

Að þessu sögðu má rifja upp það sem vísindaheimspekingurinn og guðleysinginn Michael Ruse hafði að segja um Richard Dawkins. Ruse sagði að sú mikla einföldun sem Dawkins byði upp á í málflutningi sínum fengi hann til að skammast sín fyrir að vera guðleysingi. Að mati Ruse gerir Dawkins sér alls ekki far um að skilja eða taka alvarlega þau viðhorf sem hann beinir gagnrýni sinni að. Með því skaði hann málstað guðleysingja öðru fremur.

Í lokin er vert að minna þá sem eru áhugasamir um „vitræna" umræðu um trúmál á bókina The Dawkins Delusion eftir Alister McGrath. Þar er að finna málefnalega ádeilu á málflutning Richard Dawkins. McGrath, sem er fyrrverandi guðleysingi, er virtur prófessor í guðfræði við Oxford-háskóla og einnig með gráðu í lífeðlisfræði. Bók McGraths var gefin út í íslenskri þýðingu árið 2008 undir titlinum Ranghugmynd Richard Dawkins. Því miður var henni gerð minni skil á sínum tíma en efni stóðu til, ólíkt þeirri bók sem hér hefur verið til umræðu.

* * * * 

Greinina má einnig lesa á www.trú.is


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir þessa góðu umfjöllun. Setti tengil á hana á feisbúkkinu mínu. Gaman að sjá þig hérna á blogginu og ég hlakka til að heimsækja þessa síðu.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.11.2010 kl. 13:27

2 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þakka þér Gunnar fyrir frábæra grein. Reyndar má segja að þetta innlegg sé of langt sé tekið tillit til orða þinna hér efst:

Hér birti ég greinar og stutta pistla af og til.

Hvað sem því líður þá hefur varla verið hægt að koma þessum rökstuðningi frá með nákvæmum hætti öðruvísi en gert er.

Ég segi sama og nafni minn (Alfreð) hér fyrir ofan, að mig hlakkar til að fylgjast með skrifum þínum. Vona þó að pístlarnir verði styttri þegar þar að kemur !

Sigurður Alfreð Herlufsen, 15.11.2010 kl. 17:17

3 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Þakka ykkur báðum fyrir innlitið, Svavar og Sigurður.

Já, Sigurður, ég hef aldrei verið ýkja stuttorður. Mér hættir til að skrifa langa texta. Eigum við ekki að segja að greinarnar verði í lengri kantinum og pistlarnir styttri.

Kveðja

GJ

Gunnar Jóhannesson, 16.11.2010 kl. 11:14

4 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Ég leyfi mér að vísa hér til athugasemdar Reynis Harðarsonar, þýðanda bókarinnar, sem hann lagði inn á trú.is. og svars míns til hans.

GJ

Gunnar Jóhannesson, 16.11.2010 kl. 11:17

5 identicon

"Ef allt er afleiðing af tilviljanakenndum árekstri atóma þá þýðir það að hugsanir og skoðanir mannsins eru aðeins aukaafurð þeirrar tilviljunar."

Smásætt, ef við tölum í atómum, virðist veröldin fara eftir tilviljunum eða lögmálum/ferlum sem við höfum ekki kynnst enn að fullu, sbr. vangaveltur skammtafræðinnar, en stórsætt virðast gilda eðlisfræðilögmál sem bjóða þar af leiðandi ekki upp á tilviljun. Því skil ég ekki röksemd þína hér.

"Blind og tilviljanakennd þróun án markmiðs" Markmiðið er að laga lífveruna að umhverfi sínu á líftíma hennar. Ég skil ekki hvernig þetta á að vera "blind og tilviljanakennd þróun", ef umhverfið er á einhvern hátt (þó breytilegt getur það haldist nógu svipað á afmörkuðum tíma og/eða stöðum) og erfðakóðinn leitast að laga lífveru sína að því.

Henrik (IP-tala skráð) 17.11.2010 kl. 21:44

6 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Sæll Henrik.

Þakka þér fyrir athugasemdina. Afsakaður hvað ég bregst seint við.

Það sem ég var að benda á, í samhengi þeirrar málsgreinar sem þú vitnar til, er að náttúruhyggja stenst ekki eigin mælikvarða. Náttúruhyggja ógildir sjálfa sig.

Náttúruhyggja er sú heimsskoðun að hinn efnislegi og náttúrulegi veruleiki tíma og rúms sé tæmandi lýsing á veruleikanum. Allt sem er til er hluti af náttúrunni. Utan og ofan við náttúruna er engan veruleika að finna. Þegar Guði hefur verið kippt út úr myndinni stendur náttúran ein eftir.

Samkvæmt náttúruhyggju er allt útskýranlegt á efnislegum forsendum. Það þýðir að frjáls vilji, siðferði (gott og illt, rétt og rangt), hugsun, hugræn ferli, ásetningur o.s.frv. er aðeins blekking. Á bak við það er ekkert annað en efni (atóm, rafboð o.s.frv.) og efnislegar orsakir. Veruleikinn, og maðurinn þar á meðal, er skilyrtur af efninu. Það eina sem greinir þig frá steini er að þú ert annars konar samsetning efnis og virkar með öðrum hætti.

Að hvaða leyti er náttúruhyggja mótsagnakennd? Jú, þeir sem aðhyllast náttúruhyggju trúa því að hún sé sönn og leitast við að sannfæra aðra um gildi náttúruhyggju. En ef náttúruhyggja er sönn þá er ekki til neitt sem heitir að trúa því að eitthvað sé satt því það eru ekki til neinir hugrænir atburðir af neinum toga - punktur. Með öðrum orðum: Á bak við þá sannfæringu að náttúruhyggja sé sönn er ekkert annað efnaboð í heila og rafeindir að skjótast þar frá einum stað til annars.

Náttúrulögmál eru vissulega til og þau segja til um hegðun efnis með mjög áreiðanlegum hætti. En þau stefna ekki að neinu marki. Þau eru ekki persónuleg. Þau eru aðeins einn eiginleiki af mörgum inni í þeim lokaða kassa sem alheimurinn er.

Þróun hefur vissulega afleiðingar. En í guðlausum heimi stefnir þróun ekki að tilteknu marki. Það er engin hugsun eða vilji á bak við þróun, aðeins stökkbreytingar og náttúruval. Hugleiddu orð Dawkins í þessu samhengi. Þau eru lýsandi fyrir náttúruhyggjusinna:

Eins og alheimurinn blasir við er hann nákvæmlega eins og við er að búast ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint, miskunnarlaust tómlæti.

Sem vísindamaður er ég ákafur darwínisti. Ég trúi því að náttúruval sé eini drifkraftur þróunar, að minnsta kosti sá eini sem er getur blekkt þá sem hugleiða náttúruna að það sé tilgangur á bak við hana. (Úr The Devil's Chaplain).

Ég tel að náttúruhyggja gefi okkur mótsagnakennda mynd af lífinu og tilverunni sem rími ekki við upplifun okkar af því.

Margt mætti og þyrfti að segja í samhengi þessa máls en ég læt þetta duga.

Bestu kveðjur.

GJ

Gunnar Jóhannesson, 20.11.2010 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband