Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Grimmur Guð

Í athugasemd við pistil minn Náttúruhyggja vísaði Stefán nokkur til frásagnar úr Gamla testamentinu til að sýna fram á siðferðilega ágalla Guðs. Sökum anna hef ég ekki getað svarað þessari athugasemd fyrr en nú. Ekki er hægt að leggja inn athugasemdir við áðurnefndan pistil og því birti ég svarið sem sjálfstæðan pistil.

* * * * 

Gamla testamentið geymir ýmsa texta sem erfitt er að skilja og ögra jafnframt siðferðisvitund okkar. Framhjá því verður ekki horft. Á meðal þeirra er frásögnin af því þegar Guð tekur til sín frumburð Davíðs og Batsebu til að refsa Davíð fyrir drýgðar syndir. (Í þeim texta sem tilfærður er í áðurnefndri athugasend kemur nauðgun þó hvergi beinlínis við sögu, eins og látið var að liggja.) Texta af svipuðum toga má finna víðar í Gamla testamentinu.

Nýguðleysingjar með Richard Dawkins í fararbroddi líta á Guð sem siðferðilegt skrímsli og benda á slíka texta þeirri staðhæfingu til stuðnings. Hitt vekur þó meiri furðu hvernig slíkir gildisdómar geta haldist í hendur við það viðhorf Dawkins og annarra náttúruhyggjusinna að gott og illt sé ekki til. Hér er Dawkins og aðrir náttúruhyggjumenn og guðleysingjar í mótsögn við sjálfan sig og ganga lengra en heimsskoðun þeirra leyfir.

En burtséð frá því þarf sérhver kristinn maður vissulega að horfast í augu við texta á borð við þann sem tilfærður var í umræddri athugasemd.

Það sem gerir þessa texta jafn erfiða viðureignar og raun ber vitni er að sú mynd sem þar má sjá af Guði er svo ákaflega á skjön við þá mynd af Guði sem almennt er að finna í Gamla testamentinu - sem er mynd af réttlátum, langlyndum, miskunnsömum og fyrirgefandi Guði. Í Gamla testamentinu sjáum við Guð sem sýnir mikið langlyndi gagnvart fólki sem sífellt snýr baki sínu í hann og hafnar honum. Þrátt fyrir það gefur Guð það ekki upp á bátinn heldur leitar allra leiða til að beina því á réttan veg sjálfu sér til heilla. Við sjáum Guð sem þráir að allir megi finna og lifa því lífi sem hann ætlar þeim (sbr. Esk 33.11).

En þegar litið er til texta á borð við þann sem er hér gerður að umtalsefni hvert er vandamálið í raun og veru? Ef fallist er á að til sé fullkomlega góður Guð en því hafnað að hann myndi eða gæti gengið fram eins og fram kemur í ýmsum textum Gamla testamentisins, hvað leiðir af því? Að Guð sé ekki til? Að Jesús reis ekki upp frá dauðum? Að kristin trú sé ekki sönn? Vitanlega ekki. Mótbára af þessu tagi hrekur ekki þá staðhæfingu að til sé algilt siðferði og þar af leiðandi algóður Guð sem er grundvöllur slíks siðferðis. Þvert á móti í raun. Að svo miklu leyti sem litið er svo á Guð hafa gert eitthvað siðferðilega rangt er fallist á að til sé algilt siðferði. Að svo miklu leyti sem ekki er unnt að grundvalla algilt siðferði innan marka náttúruhyggju (sem ekki er hægt að mínu mati) er slík mótbára um leið röksemd fyrir tilvist Guðs.  Sú spurning sem leiðir af mótbárunni er því miklu fremur sú hvort Guð Gamla testamentisins sé hinn sanni Guð og hvort vitnisburður Gamla testamentisins um hann sé réttur.

En hvað sem öðru líður vil ég ekki gera lítið úr athugasemd sem þessari. Hún er gild og á sannarlega rétt á sér. En að því sögðu vil ég einnig segja að þeir sem vilja sýna fram á siðferðilega annmarka Guðs í ljósi tiltekinna texta Gamla testamentisins eru oft heldur fljótir á sér enda leyfa þeir sér ekki að horfa til stærra samhengis en beinlínis nemur þeim einstaka ritningarversum sem þeir tilfæra. Hvorki er tekið tillit til víðara samhengis textans innan síns rits eða ritningarinnar í heild né heldur til hins sögulega og menningarlega samhengis sem textinn er sprottin upp úr.

Í því samhengi er vert að benda á nokkur atriði sem almennt ber að hafa í huga.

Þegar frásagnir Gamla testamentisins eru metnar í siðferðilegu ljósi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeim vandkvæðum sem maður stendur frammi fyrir. Þar er ég að vísa til þeirrar einföldu staðreyndar að þær frásagnir eru sprottnar úr menningarlegu samhengi sem er gjörólíkt okkar eigin. Ýmsar þær siðferðilegu forsendur sem töldust sjálfsagðar þá og var gengið að sem vísum teljast ótækar í dag.

Margir hafa ákaflega bjagaða mynd af Guði Biblíunnar og kristinnar trúar. Þeir telja að kærleikur sé tæmandi lýsing á Guði og að ekkert annað sé um hann að segja. Samkvæmt því skiptir það Guð litlu máli eða engu máli hvað fólk gerir. Guð fyrirgefur allt; Guð dæmir ekki; fólk þarf ekki og á ekki að þurfa að standa skil á gjörðum sínum frammi fyrir honum. En það er ekki Guð Biblíunnar og hefur aldrei verið. Guð gerir kröfur. (Það má sannarlega spyrja hvort sá Guð sem léti sig gjörðir okkar engu varða væri verðugur þess að vera tilbeðinn. Slíkur Guð væri sannarlega skelfilegur.) Eins og C.S. Lewis segir um ljónið Aslan í sögum sínum af Narníu þá er þar ekki um tamið ljón að ræða. Það sama á við um Guð. En fólki er samt tamt að meta og dæma Guð í ljósi mannlegra mælikvarða, sem er vitanlega fráleitur samanburður. Guð setur sjálfum sér ekki boð og bönn líkt og hann setur manninum. Guð er því ekki bundinn sömu siðferðilegu skyldum og maðurinn. Ef Guð myndi ákveða að binda enda á líf mitt á morgun þá væri hann ekki að fremja morð líkt og þegar maður bindur enda á líf manns. Guð er ekki siðferðilega skyldugur til að halda lífi mínu við fremur en hann vill. Guð hefur líf mitt á sínu valdi. Hann gefur það og tekur það. Hann er Guð.

Ef Guð er til hefur hann þá ekki vald yfir lífi fólks? Sumir guðleysingjar virðast líta svo á að ef Guð sé til þá standi hann ekki ofar manninum sem slíkur. Hann hafi því engan rétt til að taka líf manns eins og honum þóknast. En það er augljóslega ekki rétt. Ef Guð er til, ef hann er höfundur lífsins, þá hefur hann líka umráðarétt yfir því. Honum ber ekki skylda til að gefa okkur langt og gott líf. (Út frá kristnu sjónarhorni er það ekki tilgangur lífsins.) Maðurinn á enga heimtingu á lífi yfirleitt. Ef guðstrú er tekin alvarlega (hvort sem fallist er á hana eða ekki), þ.e. ef litið er svo á að alheimurinn sé handaverk Guðs, þá er ljóst að siðferðileg staða Guðs og okkar er mjög ójöfn og ólík, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Í umræddri frásögn deyr barn. Guð tekur til sín barn Davíðs og Batsebu. Nú eru börn sífellt að deyja og oft svo tilgangslaust að því er virðist. Þó enginn geti að óreyndu sett sig í spor þess sem hefur misst barn er ekki hægt að hugsa sér neitt sárara eða erfiðara. Eðlilega og réttilega hefur fólk eitt og annað að segja við Guð þegar svo ber við. Spurningin hvers vegna leitar á fólk. Og sú spurning á rétt á sér. Það þarf ekki að hlífa Guði við henni. Ég ætla þó ekki að svara þeirri spurningu hér. Henni er vitanlega vandsvarað. Við erum í engri aðstöðu til þess að segja til um hvaða tilgangur er á bak við þá atburði sem virðast óskiljanlegir í okkar augum. Við getum aðeins lifað í þeirri vissu að tilgangur sé fyrir hendi enda þótt að við komum ekki auga á hann og ennfremur að Guð geti og muni leiða gott fram úr hinu vonda og sára þrátt fyrir allt. Því trúir kristinn maður.  

Hér er auðvitað um að ræða hlið þess vanda sem þjáning vekur upp andspænis trúnni á algóðan og almáttugan Guð. Það er eitthvað sem einnig þarf að horfast í augu við og leita svara við. Og það er sannarlega ekki horft framhjá þjáningu þessa lífs í Gamla testamentinu sjálfu, líkt og sjá má m.a. af ýmsum Davíðssálmum og Jobsbók. Þar er Guði ekki vandaðar kveðjurnar. 

Þá vil ég einnig minna á að út frá kristnu sjónarhorni lifir enginn sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Barn sem deyr fer til Guðs föður síns og lifir áfram hjá honum. Það barn sem Guð kýs að taka til sín nýtur um alla eilífð óviðjafnanlegrar gleði og hamingju hjá honum. Hér er mikill munur á milli heimsskoðana. Út frá guðlausu sjónarhorni lýkur lífi mannsins á jafn tilhæfulausan hátt og það hófst. Það er jafnlítil merking í dauða manns og fæðingu þegar allt kemur til alls enda hvort tveggja að sama marki brennt - þ.e. engu. Ólíkt guðleysingja getur kristið fólk leyft sér að lesa tilgang inn í dauða barns þrátt fyrir allt. Dauði þess er ekki alger. Dauði barnsins markar ekki endanlok lífs þess. Barnið er í höndum hins sama Guðs og gaf því líf. Og það lifir enn.

Að síðustu vil ég benda á að út frá kristni sjónarhorni gefur Gamla testamentið okkur ekki afdráttarlausa eða skýra mynd af Guði. Í Gamla testamentinu sjáum við aðeins skuggann af Guði - ef svo má að orði komast. Eins og segir í Hebreabréfinu geymir Gamla testamentið aðeins „skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess". Hér er verið að vísa til Jesú Krists. Í honum fáum við skýra mynd af Guði. Í honum opinberar Guð vilja sinn og fyrirætlun: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf". Ef við leyfum Jesú og lífi hans að vera hluti af söguþræði Biblíunnar í heild þá hljótum við líka að skoða frásagnir Gamla testamentisins í því ljósi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband