Náttúruhyggja

Náttúruhyggja„Ég trúi á kristindóminn eins og ég trúi því að sólin hafi risið upp; ekki eingöngu vegna þess að ég sé hana heldur vegna þess að hennar vegna sé ég allt annað."

Svo sagði trúvarnarmaðurinn C.S. Lewis.

Kristin trú er heimsskoðun. Kristin trú dregur upp tiltekna mynd af veruleikanum; hún felur í sér ákveðið sjónarhorn á lífið og tilveruna. Lewis minnir okkur á að þegar horft er á lífið í ljósi kristinnar trúar fáum við skýra mynd af lífinu. Við sjáum það í réttu ljósi. Reynsla okkar og upplifun af lífinu verður skiljanleg. Lífið verður skiljanlegt.

Náttúruhyggja er líka heimsskoðun - guðlaus heimskoðun. Hún grundvallast á þeirri staðhæfingu að Guð sé ekki til. Líkt og aðrar heimsskoðanir gerir náttúruhyggja tilkall til að vera sönn og gefa rétta og sanna mynd af lífinu og tilverunni.

Náttúruhyggja er fólgin í því viðhorfi að hinn efnislegi veruleiki sé tæmandi lýsing á veruleikanum. Þegar Guði hefur verið kippt út úr myndinni stendur náttúran, þ.e. hinn efnislegi veruleiki, ein eftir. Meginstaðhæfing náttúruhyggjunnar er því sú að „alheimurinn er það eina sem var, er eða mun verða", svo vísað sé til fleygra orða Carl Sagan.

Samkvæmt náttúruhyggju er veruleikinn líkur lokuðum kassa. Allt sem gerist inni í kassanum má skýra á grundvelli einhvers annars sem gerist inni í kassanum. Ekkert utan kassans getur haft áhrif á nokkuð innan hans - enda er litið svo á að ekkert sé að finna utan hans. Það má með öðrum orðum gera grein fyrir öllu á náttúrulegum og efnislegum forsendum. Tilvist kassans er sjálfgefin. Allt á sér náttúrulegar og efnislegar orsakir. Allt er er skilyrt af náttúrunni og efninu þegar allt kemur til alls. Maðurinn er þar ekki undanskilin.

Hvað merkir þetta? Hverskonar mynd dregur náttúruhyggja upp af lífinu? Hvað leiðir af náttúrulegri sýn á lífið?

Ef náttúruhyggja er sönn þá er lífið aðeins tilviljunarkennd aukaafurð blindrar þróunar. Það er engin sérstök ástæða fyrir lífinu. Það er engin ástæða fyrir tilvist þinni. Það er engin hugsun á bak við lífið, ekkert hugvit. Lífið stefnir ekki að neinu marki. Með öðrum orðum er enginn tilgangur á bak við lífið þegar allt kemur til alls. Það er engin endanleg merking fólgin í lífinu. Við verðum því að beygja okkur fyrir fánýti og tilgangsleysi alls. Við lifum til þess eins að deyja í deyjandi alheimi. „Allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi", svo gripið sé til biblíulegs orðalags.

Ef náttúruhyggja er sönn hefur lífið ennfremur ekkert gildi. Það er ekkert til sem heitir rétt og rangt eða gott og illt í eiginlegri merkingu. Allt er náttúrulegt og hluti af náttúrunni. Allt er einfaldlega eins og það er og hefur ekkert að gera með það sem okkur finnst að ætti að vera. Í guðlausum veruleika er saga alheimsins ekki fólgin í öðru en efni sem hlýtir blindum lögmálum eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Við verðum því að beygja okkur undir siðferðislega afstæðishyggju og sjálfshyggju. Í guðlausum veruleika er algilt siðferði ekki til. Það eru aðeins til huglægar skoðanir á réttu og röngu og góðu og illu. Þegar þú segir að eitthvað sé rétt eða rang, gott eða illt, þá ert þú ekki að vísa til neins annars en þinna eigin skoðana, sem eru hvorki betri né verri en skoðanir annarra.

Ef náttúruhyggja er sönn þá býrð þú ekki yfir frjálsum vilja. Þú efnislega skilyrtur. Það eina sem greinir þig frá öðrum efnislegum hlutum er efnisleg samsetning þín og virkni. Gjörðir þínar eru ekki „þínar" í eiginlegum skilningi. Það er til lítils að lofa fólk eða lasta fyrir breytni sína. „Þú" - gjörðir þínar, hugsanir, langanir, ásetningur, tilfinningar o.s.frv. - ert ekkert annað en taugboð í heilanum á þér. Að telja sér trú um annað er blekking.

Hinn þekkti náttúruhyggjusinni og guðleysingi Richard Dawkins dregur hina náttúrulegu sýn á lífið saman í eftirfarandi orðum:

„Alheimurinn, eins og hann blasir við, er nákvæmlega eins og við er að búast ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint, miskunnarlaust tómlæti."

Fellur slíkt viðhorf að sýn þinni á lífinu og tilverunni? Rímar það við upplifun þína af sjálfum þér og lífinu?

Af hverju ættum við að trúa slíku viðhorfi? Af hverju ættum við að trúa því að náttúruhyggja sé sönn? Þeirri spurningu má svara á fleiri en einn veg. En sú spurning verður sannarlega áleitin í ljósi þess að samkvæmt náttúruhyggju er „trú" einungis taugboð í heila hvers og eins. Hún vísar ekki út fyrir sjálfa sig.

Allir náttúruhyggjusinnar „trúa" því að alheimurinn sé í eðli sínu skiljanlegur og þess vegna sé hægt að gera grein fyrir honum á skynsamlegum og rökrænum grunni. En á hverju er slík trú reist? Náttúruhyggja hefur ekkert svar við þeirri spurningu. Samkvæmt náttúruhyggju er hugur manns og heili eitt og hið sama. Samkvæmt náttúruhyggju er heilinn (og þar með hugsun okkar og skilningur) afleiðing blindrar þróunar án nokkurs markmiðs. Það er engin hugsun á bak við þá þróun. Hún er hugsunarlaus. Það er engin tilgangur á bak við hana. Hún stefnir ekki að neinu marki.

Af hverju ættum við þá að trúa nokkru sem leiðir af henni?

Þeir sem aðhyllast náttúruhyggju trúa því að hún sé sönn og leitast við að sannfæra aðra um gildi hennar. En ef náttúruhyggja er sönn þá er ekki til neitt sem heitir að trúa því að eitthvað sé satt því það eru ekki til neinir hugrænir atburðir af neinum toga. Á bak við þá sannfæringu að náttúruhyggja sé sönn er ekkert annað efnaboð í heila og rafeindir sem  skjótast þar frá einum stað til annars.

Náttúruhyggja grefur því undan sjálfri sér. Náttúruhyggja grefur undan þeirri skynsemi sem hún gerir tilkall til og byggir á. Við gætum allt eins hugsað okkur mann sem sagaði undan sjálfum sér greinina sem hann situr á. Náttúruhyggja ógildir því sjálfa sig. Náttúruhyggja er röklega mótsagnakennd. Rökleg mótsögn getur ekki verið sönn.

Í bók sinni The God Delusion segir Richard Dawkins:

„Í ljósi þess að lífið er afleiðing tilviljunarkenndrar þróunar er ósennilegt að skilningur okkar á því sé réttur."

Þetta er heiðarleg játning. Ef litið er svo á að viðhorf okkar til lífsins og skilningur okkar á því eru ekki fólgin í öðru en hugsunarlausum atómum á hreyfingu (sem sjálf eru afrakstur tilviljanakenndrar og blindrar þróunar) af hverju ættum við þá trúa þeim?

Lifir þú lífi þínu líkt og náttúruhyggja sé sönn? Lifir þú lífi þínu í ljósi þess að lífið hafi engan hinsta tilgang, merkingu eða gildi? Lifir þú lífið þínu í ljósi þess að gott og illt og rétt og rangt séu aðeins persónulegar skoðanir hvers og eins? Lifir þú lífi þínu í ljósi þess að þú berir ekki ábyrgð á gjörðum þínum?

Ef þú gerir það ekki en ert jafnframt náttúruhyggjusinni þá gengur þú lengra en heimsskoðun þín leyfir. Þú ert í mótsögn við heimsskoðun þína og berð þannig vitni um brotalamir hennar.

Ef þú gerir það ekki og ert jafnframt kristinnar trúar þá ert þú samkvæmur heimsskoðun þinni. Samkvæmt kristinni trú er hugsun og hugvit á bak við lífið. Á bak við lífið og tilveruna er skapari þess og höfundur - persónulegur, skynsamur og frjáls Guð sem jafnframt er grundvöllur siðferðisgilda og boða. Lífið og tilveran, og maðurinn þar á meðal, er handaverk hans og ber skapara sínum vitni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Stór galli á þessari röksemdafærslu þinni sem tengist tilgangi, gildum og siðferði er sá að þú útskýrir ekki hvers vegna þú telur að andstæðan við "náttúruhyggju" felur í sér að þessir hlutir séu frekar til. 

Ég gæti alveg eins sagt, ef yfirnáttúruhyggja er sönn, þá hefur lífið engan tilgang, ekkert markmið, lífið hefur ekkert markmið og þá er ekkert til sem heitir rétt og rangt í eiginlegri merkingu.

Ef ég myndi ekki útskýra hvers vegna náttúruhyggja væri nauðsynleg forsenda þessara hluta, þá vantaði nauðsynlegan hlut í röksemdafærslunni minni.

Það eina sem mér sýnist nálgast þessa röksemdafærslu þína er í lokorðunum "[guð] er grundvöllur siðferðisgilda og boða", en þú útskýrir ekki hvers vegna hann er grundvöllur einhverra "alvöru" gilda en ekki t.d. ég.

Svo er þetta t.d. augljóslega rangt: "Ef náttúruhyggja er sönn hefur lífið ennfremur ekkert gildi.", lífið hefur til dæmis heilmikið gildi fyrir mig.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 20.12.2010 kl. 19:01

2 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Sæll Hjalti.

Þakka þér athugasemdina.

Hér er einfaldlega verið að draga röklegar ályktanir af gefnum forsendum.

Ef náttúruhyggja er sönn þá er enginn tilgangur, merking eða gildi á bak við lífið þegar allt kemur til alls. Með því á ég við að það er engin sérstök ástæða á bak við lífið, ekkert mark sem það stefnir að; það er ekkert mikilvægi fólgið í lífinu, það skiptir engu eiginlegu máli; það er rúið allri siðferðilegri þýðingu og merkingu. (Þú virðist misskilja hið síðastnefnda. Gildi hefur að gera með gott og illt og rétt og rangt.)

Ef Guð er ekki til þá er það einfaldlega tálsýn að lífið hafi tilgang, merkingu og gildi. Ef náttúruhyggja er sönn þá er lífið raunverulega án tilgangs, merkingar og gildis. Með þessu á ég að sjálfsögðu ekki við að þeir sem trúa ekki á Guð lifi innihaldslausu, tilgangslausu og siðlausu lífi. Það væri jafn fráleitt að halda slíku fram og það væri óbærilegt að lifa lífi sínu í slíku ljósi. Hitt er annað mál að ef Guð er ekki til og náttúruhyggja er sönn þá er sú trú aðeins huglæg blekking.

Ef ástæða þess að lífið hefur ekki tilgang, merkingu og gildi er sú að Guð er ekki til þá horfir málið eðilega öðruvísi við ef Guð er til. Ef til er persónulegur og algóður Guð sem skapaði alheiminn í krafti vilja síns og býður okkur eilíft líf (eins og kristið fólk trúir) þá má sannarlega gera ráð fyrir því að lífið hafi í reynd tilgang, merkingu og gildi. Í því ljósi er lífið ekki tilgangslaus ferð án fyrirheits. Á bak við alheiminn er persónulegur Guð sem ákvað að hann yrði til. Lífið og tilveran er ekki tóm tilviljun. Lífinu lýkur ennfremur ekki með dauða. Þvert á móti stefnir allt að því marki sem Guð hefur sett því. Það er því ástæða á bak við lífið. Það er hugsun, skynsemi og hugvit á bak við lífið. Það er raunverulegur tilgangur fólgin í lífinu.

Þú spyrð af hverju þú getir ekki verið grundvöllur siðferðisgilda í stað Guðs. Já, það er auðvitað viðhorf guðlausra húmanista. Í þeirra huga er maðurinn æðsti mælikvarðinn. Hann er grundvöllur siðferðisgilda og mælistikan á það sem er gott og illt, rétt og rangt.

Hafðu í huga að ég er að tala um algild siðferðisgildi. Svo dæmi sé tekið var helförin röng í algildri merkingu. Með því er átt að helförin var röng þrátt fyrir að nasistarnir töldu hana rétta og góðra gjalda verð. Ef þú lætur þér nægja manninn sem mælikvarða á gott og illt og rétt og rangt þá var helförin ekki röng í þeirri merkingu. En það væri fráleitt viðhorf í mínum huga. Rétt eins og það er fráleitt að segja að siðferðilegt gildi þess að pynta saklaust barn sé háð því hvað fólki finnst.

Burtséð frá þessu er sá mælikvarði sem þú stingur upp á geðþóttafullur. Ef náttúruhyggja er sönn þá er rétt og rangt og gott og illt einfaldlega persónulegar skoðanir. Af hverju er það rangt, að gefnu guðleysi, að drepa mann, að stela frá öðrum o.s.frv. Hvað gerir það rangt?

Guð er mun sennilegri mælikvarði og grundvöllur algilds siðferðis. Ef við viljum forðast siðferðilega tómhyggju þá verðum við að viðurkenna einhvern mælikvarða. Guð er hin æðsta vera og sem slík er hann eðlileg endastöð og mælikvarði. Ennfremur er Guð samkvæmt skilgreiningu hin æðsta og fullkomnasta vera og þar með uppspretta þess sem er gott og rétt. Guðstrú er því mun sennilegri skýring á siðferðilegri reynslu og upplifun mannsins en náttúruhyggja og guðlaus húmanismi.

Með góðum kveðjum.

GJ

Gunnar Jóhannesson, 21.12.2010 kl. 01:15

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ef náttúruhyggja er sönn þá er enginn tilgangur, merking eða gildi á bak við lífið þegar allt kemur til alls.

Hvað áttu við með "þegar allt kemur til alls"? 

Með því á ég við að það er engin sérstök ástæða á bak við lífið, ekkert mark sem það stefnir að; það er ekkert mikilvægi fólgið í lífinu, það skiptir engu eiginlegu máli; það er rúið allri siðferðilegri þýðingu og merkingu.

Og þetta er rangt. Mér finnst lífið mitt mikilvægt. Þar með er "mikilvægi fólgið í lífinu" mínu.

Varðandi ástæðu og tilgang, þá get ég komið með fínt dæmi: Ímyndum okkur að hjón Jón og Sigga finnst leiðinlegt að þrífa húsið sitt. Þau ákveða að eignast barn svo að það geti þrifið húsið þeirra. Þau eignast lítið barn einmitt í þeim tilgangi. Er það þá ekki tilgangur barnsins og ástæðan fyrir veru þess að þrífa húsið?

Það er hægt að koma með svipuð rök fyrir öllu hinu. Ég sé enga ástæðu fyrir að segja að eitthvað svipað, þegar guð gerir það, sé "eiginleg" eða "alvöru" ástæða, en þegar fólk geri það sé ekki um "eiginlegar" ástæður. 

(Þú virðist misskilja hið síðastnefnda. Gildi hefur að gera með gott og illt og rétt og rangt.)

Nei, ég misskil ekki gildi. Gildi þýðir hversu mikilvægt eitthvað er þér, hvort þér finnist það einhvers virði. 

Ef Guð er ekki til þá er það einfaldlega tálsýn að lífið hafi tilgang, merkingu og gildi.

Hvað ertu að segja? Ertu að segja að ég meti lífið ekki raunverulega sem mikilvægt? 

Hitt er annað mál að ef Guð er ekki til og náttúruhyggja er sönn þá er sú trú aðeins huglæg blekking.

Veistu hvað, ef álit mitt á mikilvægi lífs míns er "huglæg blekking", þá get ég alveg eins sagt að álit einhvers guðs á mikilvægi lífs míns sé líka "huglæg blekking". Af hverju segirðu að mat guðs á því hvað sé mikilvægt sé "alvöru" gildi en mat mitt sé ekki "alvöru" gildi?

Varðandi rétt og rangt, þá segistu hafa í huga "algilt" siðferði, sem gildir alls staðar og alltaf. Ég get alveg sagt að skoðanir mínar á réttu og röngu hafi gildi alls staðar og alltaf. Sama hvort þú sért á Jörðinni eða Mars, í dag árið 3000 eða árið 1000, þá skal alltaf meta hvort eitthvað sé rétt eða rangt eftir því hvort að mér finnst það rétt eða rangt. Þar með ertu kominn með "algilt" siðferði sem byggist á náttúruhyggju.

Svo segir þú að mælikvarðinn minn sé "geðþóttafullur", en hvers vegna heldurðu að mælikvarðinn þinn sé það ekki? Mér sýnist þú bara stinga upp á skoðunum þíns meinta guðs sem grundvöll siðferðis. Skoðanir hans eru bara alveg jafn mikill "geðþótti" og skoðanir mínar. 

Guð er hin æðsta vera og sem slík er hann eðlileg endastöð og mælikvarði.

Hvað áttu við með því að hann sé "hin æðsta vera"? Og hvað af því gerir hann réttan mælikvarða á rétt og rangt?

Ennfremur er Guð samkvæmt skilgreiningu hin æðsta og fullkomnasta vera og þar með uppspretta þess sem er gott og rétt.

Þetta eru nú frekar hæpnar ályktanir. T.d. sé ég ekki hvers vegna eitthvað afskaplega óljós fullyrðing: "Guð er fullkominn" leiði af sér að hann sé "uppspretta þess sem er gott og rétt". 

Svo er það vafasamt að bara fullyrða að guð sé "uppspretta þess sem er gott og rétt". Ég get alveg eins sagt "Ég er einfaldlega uppspretta þess sem er gott og rétt." Aðalspurningin er sú hvort ég sé það í raun og veru, af hverju er einhver ástæða til þess að halda að guðinn þinn sé það frekar en ég?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 21.12.2010 kl. 15:19

4 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Sæll Hjalti.

Það sem ég á við er að það er enginn hlutlægur tilgangur, merking og gildi á bak við lífið. Lífið er á endanum tilgangslaust, merkingarlaust og gildislaust. Þegar allt kemur til alls bíður allra það eitt að deyja í alheimi sem á endanum mun sjálfur líða undir lok. Ekkert sem við gerum breytir nokkru um það sem bíður okkar. Ekkert sem við gerum skipir nokkru máli í því ljósi.

Ég efast ekki um að þú upplifir tilgang með og í lífi þínu. Að lifa lífinu undir öðrum formerkjum væri óbærilegt. En það er einfaldlega þín huglæga upplifun af lífinu. Hún ljær hins vegar ekki lífinu tilgangi, merkingu og gildi í hlutlægum skilningi.

Ég neita því ekki að fólk lifi lífi sínu í ljósi þess að það hafi tilgang, merkingu og gildi. Fólk sér margvíslegan tilgang á bak við líf sitt. Í huga þess hefur lífið mikla merkingu og er þrungið gildi. En í guðlausu ljósi er þar aðeins um huglæga blekkingu að ræða. Það er í raun og veru enginn tilgangur á bak við lífið. Það hefur enga merkingu og ekkert gildi á endanum. Líf allra en einungis misjafnlega stutt ferð án nokkurs fyrirheits; tilviljunarkennd aukaafurð tilgangslausrar og hugsunarlausrar þróunar; ljós sem lifir í stutta stund og slokknar svo endanlega og kviknar aldrei aftur. Hér er um að ræða óneitanlega afleiðingu guðlausrar heimsskoðunar.

Ég læt vera að fara orðum um dæmið sem þú býður upp á til að forðast þessa afleiðingu. Það hrekur með engu móti það sem ég hef sagt.

Ekki ætla ég að munnhöggvast við þig um hvað þú skilur eða misskilur. Hvað sem því líður leggur þú rangan skilning í notkun mína á orðinu gildi. Því er hér með komið á framfæri að ég nota orðið ekki í þeirri merkingu sem vilt eigna því. Ég er að tala um gildi í siðferðilegri merkingu.

Þú segir að „alltaf skuli meta hvort eitthvað sé rétt eða rangt eftir því hvort að mér finnst það rétt eða rangt“. Þú virðist jafnframt líta svo á að hér sé fenginn grundvöllur algilds siðferðis innan náttúrulegra marka.

Það er ákaflega erfitt að skilja hvað þú átt við hér. Vitanlega hafa skoðanir þínar gildi óháð því hvar þú ert eða hvenær þú ert. Þér finnst það sem þér finnst, hvort sem þú ert á þessum stað eða öðrum. En skoðanir þínar eru eftir sem áður aðeins huglægar og persónubundnar skoðanir. Þvert á það sem þú segir merkir algilt siðferði einmitt að eitthvað sé rétt eða rangt burtséð frá skoðunum fólks. Eins og ég tiltók í fyrri athugasemd minni þá er helförin röng þrátt fyrir að nasistarnir töldu að hún væri góð og gild. Þeim þótti hún rétt. Þér kann að þykja hún röng. Það sem þú leggur til er því fráleitur mælikvarði á rétt og rangt. Það sem leiðir af honum er siðferðileg afstæðishyggja í besta falli og siðferðileg tómhyggja í versta falli. Spurningin stendur eftir sem áður: Ef guðleysi/náttúruhyggja er sönn af hverju er eitthvað rétt eða rangt? Af hverju er það rangt að drepa mann? Af hverju er það rétt að hjálpa manni? Ég hvet þig til að svara þessum spurningum Hjalti. Að segja „af því að mér finnst það“ er ekki fullnægjandi svar. Að leiða af því algilt siðferði innan náttúrulegra marka er fráleitt. Í hvaða skilningi er maðurinn siðferðisvera ef náttúruhyggja er sönn?

Hér tekst guðstrú það sem guðleysi/náttúruhyggju mistekst, þ.e. að leggja fram frumspekilegan grundvöll fyrir hlutlægri tilvist siðferðis og siðferðisgilda, sem stendur utan og ofan við skoðanir fólks. Sem slíkur grundvöllur er Guð alls ekki geðþóttafullur. Guð ákveður ekki hvað er rétt og rangt og gott og illt. Eðli Guðs er mælikvarði á það sem er gott og rétt því Guð er eðli sínu samkvæmt góður, réttlátur o.s.frv. Guð er ennfremur, samkvæmt skilgreingu, þess verðugur að vera tilbeðinn. Aðeins vera sem er siðferðilega fullkomin er þess verð að vera tilbeðin.

Þegar þú leiðir hugann að því hver Guð er og hvað átt er við þegar talað er um Guð verður ljóst að hann er hin æðsta og fullkomnasta vera. Guð á ekki tilvist sína undir neinu. Hann hefur alltaf verið til. Allt annað er sköpun hans. Hann er því sú vera sem æðst er og fullkomnust.

Með góðum kveðjum.

Gunnar Jóhannesson, 22.12.2010 kl. 02:29

5 Smámynd: Stefán sv

Það virðist eitthvað hafa klikkað með athugasemdina mína, hérna er hún aftur. Ef þú hentir henni út þá ertu bara að sanna að það sem þú ert að reyna að réttlæta eitthvað sem þolir ekki að verða skoðað of vel....

Þú segir 

"Ef náttúruhyggja er sönn þá er rétt og rangt og gott og illt einfaldlega persónulegar skoðanir."

"Ennfremur er Guð samkvæmt skilgreiningu hin æðsta og fullkomnasta vera og þar með uppspretta þess sem er gott og rétt."

 

Hérna er guð að láta nauðga tveim konum og svo drepur hann barn til að refsa einum manni, finnst þér þetta vera gott eða illt? BTW það tók barnið 7 daga að deyja.

Síðari Samúelsbók 12-11/15

11 Svo segir Drottinn: Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi.

    12 Þú hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar."

    13 Þá sagði Davíð við Natan: "Ég hefi syndgað móti Drottni." Natan sagði við Davíð: "Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.

    14 En sakir þess, að þú hefir smánað Drottin með athæfi þínu, þá skal sá sonur, sem þér er fæddur, vissulega deyja."

    15 Síðan fór Natan heim til sín. Drottinn sló barnið, sem kona Úría hafði fætt Davíð, svo að það varð sjúkt.

Nú þarft þú að velja, annars að einhvern veginn að réttlæta þennan viðbjóð, þar að segja réttlæta nauðgun og drap á barni eða viðurkenna að guðinn í biblíunni er að gera eitthvað sem þér finnst ekki vera gott.

Stefán sv, 22.12.2010 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband