Tilvist Guðs
15.11.2010 | 11:16
Meira er rætt um guðstrú nú á dögum en oft áður. Að minnsta kosti er sú umræða með öðrum blæ en áður var, enda sýnist hverjum sitt þegar kemur að Guði og guðstrú. En hvernig sem sú umræða snýr sér hvílir hún öll á einni grundvallarforsendu, sem er tilvist Guðs. Er Guð til eða ekki?
Nú eru þeir til sem segja það engu máli skipta hvað fólki finnst eða hvað það telur sig hafa til síns máls. Guð sé ekki til, enda bendi flest til þess og skynsamlegt fólk ætti að átta sig á því. En eins og svo margir aðrir, og miklu fleiri en hinir raunar, vil ég halda hinu gagnstæða fram.
Sú staðreynd, að einhver skuli velta fyrir sér tilvist Guðs og komast að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki til felur í sér mjög góð rök fyrir því tilvist Guðs. Nú ert þú, lesandi góður, ef til vill að spyrja þig hvað ég á við. Það sem ég á við er þetta: Sé eitthvað til yfirleitt, m.a. sá sem afneitar Guði, má færa góð rök fyrir því að Guð sé til.
Það sem ég hef í huga er hin aldagamla spurning: Hvers vegna er eitthvað til fremur en ekkert? Hvernig gerum við grein fyrir því sem er, þ.e.a.s. veruleikanum, alheiminum? Hvaðan kom hann? Af hverju er hann til?"
Nú eru fjórar mögulegar útskýringar á tilvist alheimsins: Að alheimurinn sé hugarburður eða tálsýn og ekki til í raun og veru; að hann sé sjálfskapaður, þ.e. að hann hafi með einhverjum hætti skapað sjálfan sig; að alheimurinn sé til óháð öllu öðru og hafi því alltaf verið til; eða að alheimurinn hafi verið skapaður af einhverju sem er til óháð öllu öðru, einhverri eilífri veru sem geymir uppruna alls í sér.
Nú þurfum við að beita útilokunaraðferðinni.
Hvað fyrsta möguleikann varðar - að veruleikinn sé hugarburður - tók heimspekingurinn René Descartes af öll tvímæli. Ekki er unnt að efast um eigin tilvist án þess að sýna fram á hana um leið. Efi krefst þess að einhver efist, að einhver hugsi. Ég hugsa, þess vegna er ég til." Eitthvað er því sannarlega til - hvað svo sem það annars er. Sé það hugarburður þá er a.m.k. sá til sem haldin er þeim hugarburði. Við getum útilokað fyrsta möguleikann.
Sú útskýring að alheimurinn hafi skapað sjálfan sig er fráleit og gengur þvert á alla skynsemi enda er sjálfsköpun röklegur ógjörningur. Sérhver afleiðing á sér orsök, enda verður ekkert til af engu. Ef eitthvað á að hafa skapað sig sjálft, þ.e. verið sín eigin orsök, verður það að hafa verið til áður en það varð til. En nú kemur eggið ekki á undan hænunni. Til að skapa sjálfan sig þyrfti alheimurinn að hafa verið til á undan sjálfum sér. Alheimurinn þyrfti að hafa verið til en um leið ekki verið til. Við getum útilokað annan möguleikann.
Sú hugmynd að alheimurinn skapaði sjálfan sig er iðullega orðuð með þeim hætti að alheimurinn hafi orðið til fyrir einhverja tilviljun (sem þá er gjarnan skilgreind með einhverju vísindalegu" hugtaki). Það er mjög algengt að fólk haldi því fram til að forðast hugmyndina um skapara.
En hugsum málið. Ef þú kastar krónu í loftið þá eru helmingslíkur á því að þorskurinn eða landvættirnar komi upp. En hefur tilviljun" þar einhver áhrif? Ef krónunni væri nú kastað upp í lofttæmi, ávallt með sama hætti, alltaf frá sömu hlið, í nákvæmlega sömu hæð, af sama krafti og hún lenti á ávallt sama stað!? Sama hliðin kæmi alltaf upp. Það er vegna þess að orsakasamhengi hluta stýrist ekki af einhverjum ímynduðum krafti sem heitir tilviljun". Það eru tilteknir þættir sem hafa áhrif á það hvernig krónan snýr sér og lendir, m.a. þyngd krónunnar, upphaflegur kraftur kastsins, loftmótsstaða, hversu hátt hún fer, hvar hún lendir o.s.frv. Tilviljun leiðir ekki til niðurstöðunnar því að tilviljun sem slík er ekki til. Hún er ekki raunveruleg. Hún er ekki eitthvert afl eða orka. Hið ólíklegasta getur sannarlega gerst, en það er ekki tilviljun þegar það gerist. Líkur og tilviljun eru sitthvað. Það eru ávallt ástæður að baki, hversu óljósar sem þær kunna að vera. Tilviljun kemur engu til leiðar, hún orsakar ekkert. Tilviljun er alls ekki neitt og hefur því ekki áhrif á aðra hluti.
Og eins og áður sagði leiðir ekkert af engu. Ekkert getur ekki leitt til einhvers. Jafnvel David Hume, sá mikli efahyggjumaður, viðurkenndi þá staðreynd. Þegar sagt er að eitthvað verði til fyrir tilviljun þá erum við að segja að það varð til af engu - sem er bara bull. Í raun erum við að segja: Ég veit ekki hvernig það gerðist."
En hvað með möguleika þrjú og fjögur, að alheimurinn hafi ekki orðið til, þ.e. að hann sé hreinlega til í sjálfum sér og hafi því alltaf verið til; eða að hann hafi verið skapaður af einhverju öðru, einhverjum eilífum veruleika, sem sé til í sjálfum sér?
Að segja að eitthvað sé til í sjálfu sér er að segja að það sé eilíft og geymi í sér uppruna alls annars. Ef eitthvað er til - við vitum að svo er - en skapaði sig ekki sjálft, þá hlýtur eitthvað að vera til sem alltaf hefur verið til, eitthvað sem geymir uppruna alls í sér. Hugsaðu aðeins málið. Ef það var einhvern tíma svo að alls ekkert var til, hvernig getur verið að eitthvað sé til núna? Staðreyndin er eftir sem áður sú að af engu leiðir ekkert. Sú staðhæfing er í samræmi við alla okkar reynslu og þekkingu, bæði hversdagslega og vísindalega. Auðvitað getur hver sem er reynt að sýna fram á hið gagnstæða, að eitthvað geti orðið til úr engu, þ.e. orsakalaust. Það eru þó engar líkur á að það takist.
Ólíkt hugmyndinni um sjálfsköpun er ekkert fáránlegt eða óskynsamlegt við hugmyndina um sjálfsstilvist, þ.e. að eitthvað sé til í sjálfu sér. Sjálfsstilvist er skynsamlegur möguleiki vegna þess að hann gengur ekki gegn lögmálum rökfræðinnar og því ekki gegn skynsamlegri hugsun.
En hvað er til í sjálfu sér? Er það alheimurinn sjálfur eða eitthvað utan hans?
Getur verið að alheimurinn hafi alltaf verið til og sé því til í sjálfum sér og því eilífur? Hugsum málið. Sé það svo þýðir það að óendanlega langur tími hefur liðið áður en allt gerist. Í eilífum alheimi hefur liðið óendanlega langur tími áður en ég skrifaði þessi orð. En hvernig fór ég að því að skrifa þessi orð? Ég hefði ekki átt að geta það. Til að þú áttir þig á því hvað ég á við skalt þú ímynda þér uppraðaða dómínókubba. Hafðu nú einn sérstakan kubb fyrir augum þér og bíddu þar til hann fellur. Ef óendanlega margir kubbar þurfa að falla uns hann getur fallið mun hann vitanlega aldrei falla. Hinir kubbarnir ná aldrei til hans. Þú getur því hætt að bíða. Alheimurinn er ekki eilífur. Alheimurinn á sér upphaf. - Og allt sem einu sinni verður til á sér orsök.
Þess má geta að vísindin kalla þetta upphaf Miklahvell", þann atburð sem markar upphaf alls rúms, efnis, orku og tíma. Hér er því ekki aðeins um að ræða einhverja hugarleikfimi. Spurningin er auðvitað þessi: Hvað orsakaði þennan hvell"? Ekki var það ekkert, eins og við höfum séð, og þaðan af síður tilviljun.
Kristin trú á stutt og mjög skynsamlegt svar: Í upphafi skapaði Guð himin og jörð." (1Mós 1.1) Við stöndum eftir með aðeins einn möguleika. Eitthvað utan alheimsins orsakaði hann; eitthvað utan við og yfir hinum náttúrulega og efnislega veruleika, eitthvað yfirnáttúrulegt, eitthvað óefnislegt, eitthvað ótímalegt, eitthvað sem er óhjákvæmilega eilíft, ótrúlega máttugt og geymir uppruna alls í sér. Það köllum við Guð.
Þegar þú virðir fyrir þér málverk hvaða sannanir þarftu fyrir því að til sé málari? Engar vitanlega. Heilbrigð skynsemi þín segir þér að málarinn sé sannarlega til því án hans væri ekkert málverk. Nú hefur þú þetta undraverða málverk fyrir augum þér öllum stundum: alheiminn í allri sinni dýrð, fegurð og reglubundnu nákvæmni: jörðina og allt sem hún geymir, stjörnubjartan himingeiminn og allt sem í honum leynist, og sjálfa kórónu sköpunarverksins, þig sjálfa(n) og allt sem í þér er fólgið. Á bak við það er eilífur máttur sem er upphaf alls: almáttugur, persónulegur skapari - Guð.
* * * *
Þessi pistill var fluttur í útvarpsþættinum Víðsjá árið 2008
Greinina má einnig lesa á www.trú.is
Athugasemdir
Snilldargóð samantekt á klassískum rökum fyrir tilvisst Guðs og ein sú besta sem ég hef séð hér á blogginu. Þakka hana.
Svanur Gísli Þorkelsson, 15.11.2010 kl. 22:14
Leyfi mér að vísa hér til athugasemdar Matta í Vantrú, sem hann lagði inn á trú.is.
GJ
Gunnar Jóhannesson, 16.11.2010 kl. 11:52
Þakka þér fyrir Svanur.
Bestu kveðjur.
GJ
Gunnar Jóhannesson, 16.11.2010 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.