Aftur um tilvist Guðs

OrsökTil eru margskonar rök fyrir guðstrú. Þau eru af ólíkum toga. Sum eru vísindaleg, önnur heimspekileg. Enn önnur eru huglæg og byggja á persónulegri reynslu.

Heimsfræðirök leiða líkum að tilvist Guðs út frá þeirri staðreynd að alheimurinn er til. Heimsfræðirök má útfæra á ólíkan hátt. Grundvöllur einnar slíkrar röksemdarfærslu er sú forsenda að alheimurinn varð til. Ef alheimurinn er ekki eilífur þá hefur hann ekki alltaf verið til. Að því gefnu útskýrir alheimurinn ekki eigin tilvíst. Orsök alheimsins er því ekki að finna innan alheimsins sjálfs. Það hlýtur því að vera að til sé vera sem á ekki tilvist sína undir neinu öðru og er jafnframt orsök alls annars.

Ef fallist er á að ekkert verður til af engu, þ.e.a.s. að allt sem verður til eigi sér orsök, og að alheimurinn sjálfur hafi orðið til, þá er sú ályktun óhjákvæmileg að alheimurinn eigi sér orsök.

Til að komast hjá þeirri niðurstöðu þarf að hafna annarri hvorri forsendunni. Sumir gera það. Aðrir fallast á niðurstöðuna en lyfta öxlum og spyrja: „Hvað hefur þetta með Guð að gera?"

Áður en komið er að því er rétt að staldra aðeins lengur við sjálfa röksemdafærsluna. Grundvallarforsenda hennar er sú staðhæfing að alheimurinn sé takmarkaður í tíma og eigi sér upphaf. Sú staðhæfing nýtur bæði heimspekilegs stuðnings og vísindalegs stuðnings.

Látum vísindin liggja á milli hluta að sinni. Til að fá tilfinningu fyrir einni gerð heimspekilegra raka fyrir þeirri staðhæfingu að alheimurinn eigi sér upphaf getum við ímyndað okkur að við séum að lesa bók. Bókin sem við erum að lesa er rúmar þrjúhundruð blaðsíður að lengd. Við erum stödd á síðu þrjátíu og fimm. Til að komast á síðu þrjátíu og fimm þurftum við að lesa síðuna á undan henni. Til að komast á þá síðu þurftum við að lesa síðuna á undan henni og svo framvegis allt frá fyrstu síðunni. Í ljósi þess að bókin hefur að geyma upphafssíðu og ennfremur að við erum komin á síðu þrjátíu og fimm í bókinni er ljóst að við höfum aðeins lesið takmarkaðan fjölda blaðsíðna. En hvaða áhrif hefði það á lesturinn ef takmarkalausum fjölda blaðsíðna, þ.e. óendanlega mörgum blaðsíðum, væri nú bætt framan við bókina? Hvenær kæmumst við á síðu þrjátíu og fimm? Aldrei! Sama hversu lengi eða hratt við læsum myndum aldrei ná þangað.

Það sama gildir um röð þeirra atburða sem saga alheimsins saman stendur af. Við getum valið hvaða atburð sem er. Ef óendanlegur fjöldi atburða fór á undan honum (eins og reyndin væri í eilífum alheimi) hefði hann aldrei átt sér stað. Þetta segir okkur að alheimurinn hlýtur að eiga sér upphaf og þar með orðið til. Með öðrum orðum: Þegar við rekjum okkur eftir orsakakeðjunni aftur í tíma komum við að upphaflegu orsökinni, þ.e. frumorsökinni.

En hvað hefur þetta með Guð að gera?

Hér er ekki beinlínis um að ræða rök fyrir tilvist Guðs. En myndin tekur að skýrast þegar við leiðum hugann að því hvaða eiginleikum orsök alheimsins hlýtur að búa yfir.

Þegar við tölum um að sú orsök sé frum-orsök er átt við að hún er ekki sjálf osökuð af einhverju öðru. Það sem kemur fyrst er fyrst. Orsökin er ekki afleiðing einhvers annars. Hún er í réttum skilningi án orsakar og þar með eilíf. Þegar við tölum um orsökina sem frum-orsök er vísað til sambands hennar við allt annað. Hún er orsök alls annars. Allt annað en hún eru afleiðingar hennar. Án hennar væri ekkert annað til. Tilvist alls er grundvölluð á þessari orsök.

Sá orsakavaldur sem hér er lýst á mjög margt sameiginlegt með Guði kristinnar trúar. Í báðum tilfellum er um að ræða skapara alheimsins. Þá er orsakavaldurinn að öllu leyti handan alheimsins. Um er að ræða tímalausa veru sem ekki þiggur tilvist sína annars staðar frá og er um leið grundvöllur tilvistar alheimsins. Þar sem tilvist alheimsins er ekki nauðsynleg má rekja upphaf hans til ásetnings þessa orsakavalds. Í því ljósi hlýtur að vera um persónulega og vitræna veru að ræða. Þá er orsakavaldurinn ólýsanlega máttugur þar sem hann skapaði efnislegan alheim úr engu. Að síðustu má segja að þar sem alheimurinn væri ekki til nema fyrir það að hann var skapaður af þessum orsakavaldi þá býður alheimurinn upp á frekari eftirgrennslan um eðli og tilgang skapara síns.

Á grundvelli röksemdafærslunnar má draga þá ályktun að til er persónuleg og tímalaus vera, nægilega máttug og vitræn til að skapa alheiminn. Ennfremur má gera ráð fyrir því að þessi vera skapaði alheiminn af ástæðu. Hvað sem fólk kýs að kalla þennan orsakavald er ljóst að GUÐ er mjög svo viðeigandi titill.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Þakka þér fyrir þessa góðu pistla.

Hörður Sigurðsson Diego, 3.12.2010 kl. 15:39

2 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Þakka þér fyrir Hörður - og fyrir lesturinn.

Bestu kveðjur. 

Gunnar Jóhannesson, 3.12.2010 kl. 19:27

3 identicon

Þú skrifar:

"Grundvallarforsenda hennar er sú staðhæfing að alheimurinn sé takmarkaður í tíma og eigi sér upphaf. Sú staðhæfing nýtur bæði heimspekilegs stuðnings og vísindalegs stuðnings."

En þetta þarf ekki að vera rétt. Kannski sjáum við: Big Bang - útþensla heimsins - samþjöppun heimsins - Big Bang - útþensla heimsins - samþjöppun heimsins - Big Bang... o.s.frv.

Það væri hægt að færa fram rök fyrir því að sá útþensla-samþjöppun gæti ekki haldið áfram endalaust. Tilviljun mun ráða ef og þegar það kemur að því að jafnvægi náist eða þegar útþenslan muni halda áfram og alkul tekur við út um allt.

En kannski er það ekki rétt hjá Einstein þegar hann segir að "God does not play dice with the universe". Kannski gerir hann einmitt það lika. Og væri það ekki i anda guðhugtökin? Vera sem náir útan um allt, hið rökræna og órökræna.

Jakob Andersen (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 23:38

4 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Sæll Jakob.

Þakka þér fyrir athugasemdina. 

En þetta þarf ekki að vera rétt.

Samkvæmt öllum kenningum og athugunum er þetta þó rétt. Saga heimfræðinnar er öðrum þræði fólgin í síendurteknum tilraunum til að komast hjá sérstæðunni og þar með þeirri niðurstöðu að alheimurinn eigi sér algjört upphaf (og þar með yfirnáttúrulega orsök). Þær tilraunir hafa hins vegar ekki gengið upp. 

Það módel sem þú vísar til er ein slík tilraun. Samkvæmt því þenst alheimurinn út uns hann tekur að dragast saman og þannig til skiptis út í hið óendanlega. Árið 1970 sýndu Hawking og Penrose hins vegar að upphafleg sérstæða er óhjákvæmileg (sjá bók þeirra The Nature of Space and Time).

Burtséð frá því hefur ekki verið sýnt fram á hvað ætti að koma alheimi sem er að dragast saman til að þenjast út að nýju. Þá hafa tilraunir til að sýna fram á þéttleika efnis sem myndi duga til að vinna gegn útþennslu alheimsins og snúa henni við verið árangurslausar. Þvert á móti benda mælingar á bakgrunnsgeislun alheimsins að hann muni þenjast út um allan tíma.

Hvað varðar annað sem fram kemur í athugasemd þinni þá skil ég ekki hvað þú átt við þar.

Bestu kveðjur.

GJ

Gunnar Jóhannesson, 11.12.2010 kl. 21:49

5 identicon

Takk fyrir svarið, Gunnar

En samt finnst mér þú miskillur eitthvað. Vísindi segir ekkert um "að alhimuinn eigi sér algjört upphaf".

"All ideas concerning the very early universe (cosmogony) are speculative. As of early 2010, no accelerator experiments probe energies of sufficient magnitude to provide any experimental insight into the behavior of matter at the energy levels that prevailed during this period. Proposed scenarios differ radically. Some examples are the Hartle-Hawking initial state, string landscape, brane inflation, string gas cosmology, and the ekpyrotic universe. Some of these are mutually compatible, while others are not."

Svo, við vitum ekki neitt, en samt villt þú bygja rðk fyrir tilvist guðs á eitthvað sem við vitum ekki neitt um. Mér finnst það´ekki trúverðugt.

Og svo segir þú eftirfarandi:

"Þvert á móti benda mælingar á bakgrunnsgeislun alheimsins að hann muni þenjast út um allan tíma."

Hvað þýður það: Jú, alkul með timanum. Svo, er það örlög okkar samkvæmt Guð: að frjósa í hel?

Jakob Andersen (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 00:50

6 Smámynd: Gunnar Jóhannesson

Sæll á ný Jakob og þakka þér nýja athugasemd.

Mótbára þín er ekki góð.

Tilvitnunin sem þú lætur fylgja styður ekki þá staðhæfingu þína að vísindin segi ekkert um að alheimurinn eigi sér algjört upphaf. Ef ég les samhengi hennar rétt þá minnir hún hins vegar á að vísindamönnum greinir á um þær aðstæður sem voru fyrir hendi í upphafi, þ.e. rétt á eftir Miklahvelli.

Burtséð frá því er staðhæfing þín ekki rétt. Hið almenna viðhorf í dag er sannarlega að alheimurinn eigi sér upphaf. Vísindamenn líta ekki svo á að alheimurinn hafi alltaf verið til. Kenningin um Miklahvell er sú kenning að alheimurinn hafi orðið til og eigi sér þar með upphaf. Með því er átt að tímarúmið sjálft ásamt öllu sínu innihaldi (efni og orku) hafi komið til sögunnar á tilgreindu augnabliki í fortíðinni.

Í þessu samhengi má minna á að árið 2003 sönnuðu heimsfræðingarnir Arvid Borde, Alan Guth og Alexander Vilenkin, að sérhver alheimur sem væri að þenjast út getur ekki verið eilífur og hlýtur að eiga sér algjört upphaf. Í því ljósi sagði Vilenkin:

Heimfræðingar geta ekki lengur falið sig á bak við möguleikann á eilífum alheimi. Þeir verða að horfast í augu við upphaf á alheimsvísu.

Af þessu leiðir að alheimurinn á sér orsök sem eðli málsins samkvæmt er handan alheimsins sjálfs og þar með yfirnáttúruleg. Það er ennfremur mjög skynsamlegt að ætla að sú orsök sé ótímaleg, rýmislaus, óefnisleg og persónuleg.

Hvað varðar síðasta hluta athugasemdar þinnar má minna á að endanleg örlög alheimsins hafa ekkert að gera með röksemdafærsluna. Vissulega mun alheimurinn, samkvæmt því sem vísindin segja, deyja út með tímanum. En út frá sjónarhóli kristinnar trúar eru það hvorki endanleg örlög okkar né alheimsins. Samkvæmt kristinni trú stefnir allt að því marki sem Guð sjálfur hefur sett alheiminum og öllu innan hans. Alheimurinn þurfti ekki að vera til. Samkvæmt kristinni trú er ástæða fyrir tilvist hans. Kristin trú getur því gert ráð fyrir tilgangi á bakvið lífið og tilveruna. Samkvæmt því horfir kristinn maður til nýs himins og nýrrar jarðar - þ.e. annarskonar tilvistar - sem taka mun við af þessari. Guðleysinginn verður hins vegar að beygja sig fyrir fánýti og tilgangsleysi alls þegar allt kemur til alls, enda er hann lokaður inni í náttúrulegum veruleika sem stefnir ekki að neinu eiginlegu marki og bíður hann þess eins að deyja í deyjandi alheimi.

Af hverju vilt þú ekki trúa á Guð, Jakob? Hvað stendur í vegi fyrir því?

Bestu kveðjur.

Gunnar Jóhannesson, 12.12.2010 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband